Nordea, stærsti banki Norðurlanda, hagnaðist um tæplega 1,1 milljarð evra, um 170 milljarða íslenskra króna, fyrir skatta á fjórða ársfjórðungi. Þannig tvöfaldaði bankinn nærri því afkomu sína frá sama fjórðungi ársins 2009 en þá var hagnaðurinn 592 milljónir evra fyrir skatta.

Afkoma ársins 2010 í heild var jákvæð um 3,6 milljarða evra sem er aukning um 18% frá fyrra ári. Í tilkynningu frá Nordea er það haft eftir forstjóranum Christian Clausen að tekjur bankans hafi aldrei verið hærri á einum ársfjórðungi en einmitt þeim síðasta og að allir lykilþættir rekstursins hafi skilað meiri tekjum en árin þar á undan.