Innlögð mjólk á nýliðnu verðlagsári, 1. september 2008 til 31. ágúst 2009, var 126.339.040 lítrar og hefur hún ekki áður verið meiri á einu verðlagsári.

Þetta kemur fram á vef Bændablaðsins.

Framleiðslan var tæplega 1,4 milljónum lítra meiri en á sama tímabili 2007/2008. Bráðabirgðatölur benda til að innlögð mjólk umfram greiðslumark hafi verið 10,8 milljónir lítra. Á þeim búum sem ekki náðu að fylla greiðslumarkið hefur því samanlagt vantað 3,5 milljónir lítra uppá, þar sem greiðslumarkið var 119 milljónir lítra.

Þá kemur fram að salan á próteingrunni undanfarna 12 mánuði er 118 milljónir lítra, hefur aukist um 1,6% á tímabilinu. Sala á fitugrunni er tæplega 115 milljónir lítra og hefur aukist um 3,8%. Þess ber þó að geta að duftsala í júlí sl. var miklu meiri en venja er til, vegna hækkunar á því 1. ágúst sl.

Sjá nánar á vef Bændablaðsins.