Norðmenn hafa aldrei grætt meira á olíuvinnslu en í fyrra. Þá var hlutur norska ríkisins af olíuvinnslu á norska landgrunninu 155 milljarðar norskra króna af 159,9 milljarða heildardæmi. Það samsvarar um 2.489 milljörðum íslenskra króna. Er þetta nýtt met og mun meiri tekjur en á árinu 2007 sem þá voru 112,9 milljarðar NOK.

Í norska dagblaðinu Verdens Gang (VG), kemur fram að hröð lækkun olíuverðs eftir mitt síðasta ár hafi þó haft neikvæð áhrif á fjórða ársfjórðung 2008. Afar hátt verð framan af ári gerði það þó að verkum að heildarútkoman var mun betri en árið áður. Niðurstaðan varð sú að heildartekjur af olíuvinnslunni 2008 voru 214,6 milljarðar norskra króna á móti 167,7 milljöðrum á árinu 2007. Er þetta einkum þakkað háu heimsmarkaðsverði á olíu. Þá fór einungis tíundi hluti af tekjunum í nýjar fjárfestingar í olíuvinnslu.

Til gamans má geta þess að tekjur Norðmanna af olíuvinnslunni á síðasta ári færu líklega langt með að borga upp allt það sem mögulega gæti þurft að afskrifa hjá íslenskum heimilum og fyrirtækjum vegna efnahagshrunsins ef allt fer á versta veg.