Lággjaldaflugfélagið Ryanair hefur sjaldan staðið betur og var hagnaður þess 503 milljónir evra á fyrstu mánuðum ársins. Það er 25% aukning miðað við sama tímabil á síðasta ári. Tekjur félagsins jukust um 19% og voru 4,3 milljarðar evra. Þetta kemur fram á vef fréttaveitunnar Reuters. Ryanair sló jafnframt eigin met með góðri niðurstöðu fyrir árið 2011.

Skýringin er einna helst hækkun fargjalda en gjöldin hafa hækkað um 16% að meðatali. Þá fjölgaði keyptum ferðum um 5%. Hvoru tveggja aðstoðaði félagið við að koma til móts við 30% hækkun eldsneytisverðs.

Ryanair vara þó við að hagnaðurinn verði ekki eins góður á komandi mánuðum og spá 20% lækkun á árinu í heild. Þeir segja fargjaldahækkanir ekki geta haldið áfram að vega á móti vaxandi eldsneytiskostnaði sem samhliða samdrætti á heimsvísu þýði að erfiðir mánuðir séu framundan.