Fraktflugfélagið Cargolux, sem var í eina tíð dótturfélag Loftleiða, skilaði methagnaði á síðasta ári sem var jafnframt 50 ára afmæli félagsins. Hagnaðurinn eftir skatta nam 769 milljónum dala, samanborið við 20 milljónir dala árið áður. Tekjur félagsins jukust um 40% milli ára og námu 3,2 milljörðum dala.

Í tilkynningu Cargolux segir að horfurnar í byrjun síðasta árs hafi verið nokkuð dökkar þar sem framleiðsla í Kína dróst verulega saman í upphafi faraldursins. Hins vegar var fordæmislaus eftirspurn eftir flutningi á persónuhlífum (e. personal protective equipment). Fyrirtækið segist hafa spilað lykilhlutverki í að flytja nauðsynjavörur í faraldrinum þar sem mikið skarð hafi myndast á markaðnum við kyrrsetningu margra farþegaflugvéla.

Cargolux er í dag stærsta fraktflugfélag Evrópu. Alls eru 30 flugvélar í flota félagsins, þar af eru sextán Boeing 747-400 vélar og fjórtán Boeing 747-8 fraktflugvélar.

Cargolux efndi í ítarlega umfjöllun um sögu flugfélagsins á heimasíðu sinni í tilefni hálfaldarafmælisins á síðasta ári. Þar var meðal annars fjallað um aðkomu Alfreðs Elíassonar og Loftleiða að stofnun félagsins.