Rússneski olíurisinn Gazprom hagnaðist um 20 milljarða dala á fyrstu níu mánuðum ársins. Um er að ræða mesta hagnað á einu rekstrarári í sögu fyrirtækisins þó þrír mánuðir séu enn eftir. Olíufyrirtækið gerir ráð fyrir að rekstrarniðurstaðan verði enn betri á síðasta fjórðungi rekstrarársins.

Afkoman skýrist hvað helst af gífurlegum verðhækkunum á gasi í Evrópu, helsta útflutningsmarkaði Gazprom sem fer með einkaleyfi á útflutningi í gasleiðslukerfi Rússlands. Olíurisinn hefur uppfyllt samningsskyldur sínar en að öðru leyti haldið að sér höndum þegar kemur að framboði, að því er kemur fram í frétt Financial Times .

Sjá einnig: Rússar halda að sér höndum

Verð á gasi hefur hækkað samfellt í sex fjórðunga í röð. Verð á þriðja ársfjórðungi var nærri þrefalt meira en á sama tíma í fyrra og nam 304 Bandaríkjadölum á hverja 1.000 rúmmetra. Verðið hefur hækkað töluvert síðan þá, m.a. vegna kulda í Evrópu um þessar mundir, og greiningaraðilar eiga jafnvel von á frekari hækkunum út fyrsta fjórðung á næsta ári.

Tekjur af gassölu á fyrstu níu mánuðum ársins voru 77% hærri en á sama tíma í fyrra og námu 3,5 þúsund milljörðum rúblna. Sala til Evrópu og Tyrklands jókst um 117% á milli ára.