Töluverð söluaukning á stoðtækjum og aukinn hagnaður var hjá Össuri á öðrum ársfjórðungi þessa árs. Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri félagsins fyrir annan ársfjórðung. Hagnaður félagsins nam 17 milljónum bandaríkjadala samanborið við 8 milljónir dala á öðrum ársfjórðungi í fyrra. Það er jafnvirði tæpra tveggja milljarða íslenskra króna.

„Árangur okkar á fyrri helmingi ársins er einkar ánægjulegur. Árið fór vel af stað og nú á öðrum ársfjórðungi skilum við methagnaði og áframhaldandi sterku sjóðstreymi," segir Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar.

Aukin sala skýrir hagnaðinn

Hagnaðurinn er afleiðing mikillar aukningar á sölu á vörum Össurar, en söluaukningin var 23% á milli ára í staðbundinni mynt. Sala á stoðtækjum jókst um 15%. „Söluvöxtur í EMEA er áfram góður og árangur þeirra félaga sem við höfum keypt undanfarið er í takti við okkar væntingar. Sala á stoðtækjum er mjög góð og þá sérstaklega sala á hátæknivörum sem staðfestir velgengni okkar á þeim vettvangi," bætir Jón við.

EBITDA félagsins nam 29 milljónum bandaríkjadala eða 19% af sölu, samanborið við 11 milljónir dala og 11% af sölu árið áður.