Suður-Kóreski tæknirisinn Samsung, hagnaðist um 12,67 milljarða dollara á öðrum ársfjórðungi þessa árs. Hefur fyrirtækið aldrei skilað meiri hagnaði á einum ársfjórðungi. Jókst hagnaður félagsins um 72,7% samanborið við sama tímabil í fyrra. Tekjur námu 54,7 milljörðum dollara og jukust um 19,8% á milli ára.

Samkvæmt frétt Reuters kemur stór hluti aukins hagnaðar til af því að sala á minniskortum þrefaldaðist frá sama tímabili í fyrra og nam hagnaður af framleiðslunni 7,2 milljörðum dollara.

Þrátt fyrir góða afkomu lækkaði gengi hlutabréfa Samsung um 0,1% í suður-kóresku kauphöllinni. Frá áramótum hefur gengi hlutabréfa félagsins hækkað um 38%.