Exxon Mobil, stærsta olíufyrirtæki Bandaríkjanna, hagnaðist um 55,7 milljarða Bandaríkjadala, eða um 7,9 þúsund milljarða króna, árið 2022 sem má einkum rekja til verðhækkana á olíu- og gasverði í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu. Um er að ræða mesta hagnað í sögu félagsins.

Í umfjöllun Wall Street Journal segir að af skráðum bandarískum félögum sem hafa birt uppgjör vegna fjórða ársfjórðungs eru Apple og Microsoft einu félögin sem högnuðust meira en Exxon á síðasta ári.

Hlutabréfaverð Exxon hækkaði um 80% á síðasta ári. Einungis þrjú önnur félög í S&P 500 vísitölunni hækkuðu meira á síðasta ári. Það voru olíufyrirtækin Occidental Petroleum, Hess Corporation og Marathon Petroleum.

Hagnaðurinn dróst talsvert saman á milli fjórðunga

Exxon skilaði 12,75 milljarða dala hagnaði á fjórða ársfjórðungi, sem var þó undir væntingum Wall Street en búist var við að afkoman yrði nær 13,7 milljörðum dala. Þrátt fyrir að síðasti fjórðungur var einn sá besti í sögu Exxon dróst hagnaður félagsins talsvert saman frá þriðja fjórðungi þegar hann nam 19,7 milljörðum dala. Það má einkum rekja til þess að olíu- og gasverð lækkaði eftir síðasta sumar.

Exxon gjaldfærði 1,3 milljarða dala í einskiptisliði á fjórða ársfjórðungi, þar á meðal vegna hvalrekaskatta í Evrópu. Bandaríska félagið hefur höfðað mál gegn Evrópusambandinu vegna hvalrekaskattsins.

Á uppgjörsfundi varaði Darren Woods, forstjóri Exxon, við því að framboð af olíu- og gasi verði áfram undir þrýstingi þar sem núverandi framleiðsla annar ekki aukinni eftirspurn. Þá hafi ákveðnir samkeppnisaðilar dregið úr fjárfestingum.