*

miðvikudagur, 16. júní 2021
Innlent 12. maí 2018 10:02

Methagnaður hjá Stofnfiski

Hagnaður Stofnfisks hækkar úr 15 milljónum í 500 milljónum króna milli ára.

Ritstjórn
Eldisstöð Stofnfisks í Vogum.

Hagnaður Stofnfisks nam 500 milljónum króna á síðasta rekstrarári, sem nær frá 1. október til 30. september ár hvert, og hefur aldrei verið hærri á einu rekstrarári. Hagnaðurinn nam 15,6 milljónum króna á fyrra ári.

Þá jukust tekjur félagsins um 40% milli ára, úr 1,4 milljörðum króna í tæplega 2 milljarða króna. Til samanburðar námu tekjurnar 1,4 milljörðum króna árið 2014 og 1,7 milljörðum króna á rekstrarárinu 2015 en það rekstrarár stóð frá janúar til september 2017.

55% vöxtur í útflutningi til Chile

Stofnfiskur greindi frá því í desember að innflutningur á hrognum til Chile hefði aukist um 55% milli ára og sala til Noregs hefði aukist um 30%. Stofnfiskur selur um 100 milljónir hrogna um allan heim á ári sem gefa um 250 þúsund tonn af eldislaxi. Rekstrarárið 2015 nam hagnaður félagsins 462 milljónum króna en 124 milljónum króna árið 2014. Rekstrarhagnaður Stofnfisks á síðasta rekstrarári nam 102 milljónum króna miðað við 220 milljóna króna tap á fyrra ári.

Lífmassi metinn á tvo milljarða

Þá jókst virði lífmassa fyrirtækisins, það er hrogna, seiða og eldisstofns um 551 milljón króna milli ára miðað við 143 milljóna króna hækkun á fyrra ári. Eignir félagsins námu 4,1 milljarði króna í lok reikningsársins. Þar af nam lífmassi um 2,2 milljörðum króna. Fasteignir, tæki og búnaður er metinn á 1,5 milljarða króna.

Handbært fé nam 173 milljónum í lok reikningsársins og viðskiptakröfur um 250 milljónum króna. Handbært fé frá rekstri nam 300 milljónum króna. Ekki verður greiddur arður af hagnaði ársins en félagið hefur ekki greitt arð síðustu ár. Eigið fé félagsins nam 2,1 milljarði króna og skuldir 2 milljörðum króna í lok september. Þar af nam lán frá móðurfélagi Stofnfisks 1,2 milljörðum króna. Laun og launatengd gjöld námu 585 miljónum króna miðað við 554 milljónir á fyrra reikningsári. Meðalstöðugildum fjölgaði úr 58 í 62 milli ára.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.