Svissneski seðlabankinn tilkynnti um methagnað af rekstri sínum á síðasta ári en bankinn býst við að hagnaðurinn nemi um 54 milljörðum svissneskra franka, eða sem nemur 5.781 milljarði íslenskra króna.

Hagnaðurinn kemur til af fjárfestingum seðlabankans í hlutabréfum og skuldabréfum en um er að ræða fjárhæð sem nemur um 8% af landsframleiðslu Sviss. Upphæðin er hærri en allar tekjur Apple á einu ári, sem og hærri en samanlagðar tekjur fjárfestingarbankanna JPMorgan Chase & Co og Berkshire Hathaway.

Til samanburðar bendir WSJ á að hagnaður af rekstri bandaríska seðlabankans nemi um 100 milljörðum Bandaríkjadala, eða sem nemur 10.516 milljörðum íslenskra króna. En sama hlutfall af landsframleiðslu í Bandaríkjunum myndi þýða um 1.500 milljörðum Bandaríkjadala.

Starfsmenn svissneska seðlabankans eru um 800 talsins og tekjur stjórnarformanns bankans nema um milljón Bandaríkjadala, eða sem samsvarar 105 milljónum íslenskra króna á ári. Seðlabanki Sviss er einn fárra í heiminum sem hægt er að kaupa hlutabréf í en gengi bréfa í bankanum tvöfaldaðist á síðasta ári, en í kjölfar birtingar upplýsinganna fyrr í dag hækkaði gengið um 3%.