Hagnaður Varðar trygginga, sem er í eigu Arion banka, jókst um 23% á milli ára og nam tæplega 2,5 milljörðum króna á árinu 2021, samkvæmt afkomutilkynningu sem Vörður tryggingar birti í dag.

Hagnaður tryggingafélagsins hefur aldrei verið meiri. Aukinn hagnaður félagsins skýrist helst af bættri afkomu í tryggingarekstri og góðri afkomu í fjárfestingarstarfsemi, að því er kemur fram í tilkynningunni.

Þannig námu fjáreignatekjur tæplega 2,3 milljörðum króna á síðasta ári en þær jukust um 21% á milli ára. Iðgjöld jukust auk þess um 12% á milli ára og námu 13,7 milljörðum króna.

Samkvæmt afkomuviðvöruninni var arðsemi eiginfjár félagsins 26,2% á árinu 2021 og eiginfjárhlutfall tæplega 32% við lok síðasta árs. Samsett hlutfall lækkaði í 93,2% á árinu 2021 en var 94,4% á árinu 2020.

Guðmundur Jóhann Jónsson, forstjóri Varðar:

„Árið einkenndist af framþróun á flestum sviðum en á sama tíma af umbreytingu í starfseminni, sem gerð er til hagsbóta fyrir viðskiptavini en þeim fjölgaði mikið á árinu. Við erum á góðri vegferð og auðvitað stolt af árangrinum. Starfsfólk félagsins fær stórt hrós fyrir framúrskarandi gott starf."