Tekjur norska olíusjóðsins og hagnaður hans hafa aldrei verið meiri. Á fyrstu sex mánuðum ársins námu tekjur hans 110 milljörðum norskra króna, um 2.208 milljörðum íslenskra króna og hagnaður sjóðsins nam rúmlega 82 milljörðum norskra króna sem samsvarar um 1.650 milljörðum íslenskra króna. Þetta kemur fram í uppgjöri sjóðsins fyrir fyrstu sex mánuði ársins.

Á fyrstu sex mánuðum ársins 2011 námu tekjur sjóðsins um 92 milljörðum norskra króna og hagnaður af rekstri um 66 milljörðum norskra króna. Það er því um verulega aukningu að ræða miðað við rekstur síðasta árs. Hærra olíu og gasverð til viðbótar við aukna framleiðslu skýrir að stærstum hluta þessa aukningu í tekjum og hagnaði sjóðsins.

Þess má geta að íbúar Noregs eru um fimm milljónir talsins og nemur því hagnaður sjóðsins á hvern íbúa rúmlega 16.000 norskra króna, sem samsvarar rúmlega 320.000 íslenskum krónum, á fyrstu sex mánuðum ársins.