Financial Times segir frá því í frétt að íslensku bankarnir hafi sýnt methagnað á fyrsta ársfjórðungi og "sýnt að þeir hafa staðið af sér óveðrið sem geisað hefur á heimamarkaði í ár." Uppgjör þeirra sýni þó, að þeir hafi dregið sig af íslenskum hlutabréfamarkaði í nokkrum mæli, vegna mikils óstöðugleika í gengi hlutabréfa, skuldabréfa og íslensku krónunnar.

Í fréttinni, sem skrifuð var áður en Glitnir og Landsbanki skiluðu metuppgjörum, segir frá metafkomu Kaupþings og Straums-Burðaráss. Segir að hagnaður þeirra hafi aukist, ekki síst vegna yfirtaka og gengishagnaðar. Vitnað er í fréttatilkynningu frá Kaupþingi, þar sem segir að óvissan á hlutabréfa- og gjaldeyrismarkaði hafi enn sem komið er ekki haft neikvæð áhrif á starfsemi bankans og gæði eigna.

Hagnaður Kaupþings fyrir skatta jókst um 54,9% á fyrsta fjórðungi og nam 22,2 milljörðum króna. Tekjur jukust um 60% og námu 35,5 milljörðum. Vöxtinn þakkar Financial Times yfirtöku Kaupþings á breska fjárfestingarbankanum Singer & Friedlander í ágúst á síðasta ári.

Hagnaður Straums-Burðaráss meira en fjórfaldaðist á fyrsta ársfjórðungi og var 19,1 milljarður króna.