Rekstrarhagnaður Actavis samstæðunnar á fyrsta ársfjórðungi jókst um 236% og nam 341 milljón evra (30,6 milljarðar króna), segir í tilkynningu. Þetta er metárangur hjá samheitalyfjafyrirtækinu en að baki liggur að rekstur gekk vel í öllum einingum samstæðunnar.

Sala í Austur- og Mið-Evrópu og Asíu jókst um 62% og nam 116,5 milljónum evra ( 10,4 milljarðar króna). Salan í Vestur- Evrópu, Mið-Austurlöndum og Afríku jókst um 71,9 milljónir evra ( 6,4 milljaðra króna) og munar þar mestu um yfirtökuna á evrópska lyfjafyrirtækinu Alpharma. Salan í Norður-Ameríku nam 113 milljónum evra (10,1 milljarður króna).

EBITDA hagnaður (hagnaður fyrir afskriftir, skatta og fjármagnsliði) jókst um 17%. Heildarhagnaður jókst um 202% og nam 38,9 milljónum evra (3,5 milljarðar króna) í kjölfar mikills vaxtar í Þýskalandi og Frakklandi. Hagnaður á hlut jókst um 58%.

Á fjórðungnum jók félagið langtímaskuldir sínar um 214 milljónir evra (19,3 milljarðar króna) aðallega til að fjármagna yfirtöku á Sindan í Rúmeníu. Heildarskuldir félagsins eru nú 989,4 milljónir evra (90 milljarðar króna).

"Fyrsti ársfjórðungur hefur verið tímabil óvenjumikils hagnaðar fyrir Actavis og þetta er þriðji fjórðungurinn í röð sem okkur hefur tekist að slá met og farið fram úr væntingum markaðarins," segir Róbert Wessman, forstjóri Actavis, um uppgjörið.

"Félaginu hefur vegnað vel vegna velheppnaðra yfirtaka á nýjum mörkuðum og á stuttum tíma höfum við kynnt til leiks 86 nýjar vörur inn á marga mismunandi markaði. Við hjá Avtavis munum halda áfram að skila góðum niðurstöðum á árinu enda mikið af spennandi tækifærum fram undan".