Bakkavör Group hf. skilaði 3,9 milljarða króna hagnaði fyrir skatta á fyrri helmingi ársins og á öðrum ársfjórðungi nam hagnaður fyrir skatta 2,8 milljörðum króna. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Sala félagsins á fyrri helmingi ársins nam 78,3 milljörðum króna og 42,0 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi. Rekstrarhagnaður nam 7,2 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum ársins og 4,6 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi.

Hagnaður fyrir skatta og fjármagnsliði (EBITDA) nam 9,6 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðunum og jókst um 123% milli tímabila.

Þá nam EBITDA 5,7 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi, sem er 82% aukning. Handbært fé frá rekstri nam 6,2 milljörðum króna og frjálst fjárflæði frá rekstri var 4,1 milljarður króna á fyrri helmingi ársins.

Hagnaður á hlut var 1,1 pens á fyrri hluta ársins og jókst um 53% miðað við sama tímabil í fyrra. Arðsemi eigin fjár var 25,2% á fyrstu sex mánuðum ársins samanborið við 25,5% á sama tímabili í fyrra.

Ágúst Guðmundsson, forstjóri Bakkavarar sagði um uppgjörið:

?Bakkavör Group skilar enn og aftur methagnaði á fyrstu sex mánuðum ársins. Afkoma félagsins í Bretlandi staðfestir leiðandi stöðu okkar á markaðinum sem við styrktum enn frekar með kaupunum á Laurens Patisseries og New Primebake. Afkoma félagsins á meginlandi Evrópu hefur batnað verulega á tímabilinu og við reiknum með að starfsemin þar muni styrkjast og vaxa í náinni framtíð."