Rekstur Bentley Motors í Bretlandi skilaði methagnaði á síðasta ári. Velta fyrirtækisins jókst um 2,7% miðað við árið 2006 og nettóhagnaður af starfseminni jókst um 18 milljónir punda, fór í 155 milljónir punda sem er met og aukning upp á 13,1%.

Tölurnar endurspegla metsölu á Bentley bifreiðum á síðasta ári þegar í fyrsta sinn í sögu framleiðandans seldust yfir 10.000 bílar. Sala á heimsvísu jókst um 7% og nam alls 10.014 bílum. Aukning varð á næstum öllum mörkuðum; 7% í Bretlandi, 4% í Bandaríkjunum, 7% í Evrópu, 18% í Asíu og Kyrrahafslöndunum og 93% í Kína.

Þeir bílar sem stóðu undir söluaukningunni eru Arnage og Continental línurnar. Nýr Azure blæjubíll stuðlaði t.a.m. að 45% söluaukningu í Arnage-línunni. Söluaukning á Continental-línunni var 5%, þar af stóð GTC blæjubíllinn fyrir mestri sölu.