Hagnaður Glitnis eftir skatta hækkaði í ellefu milljarða króna á öðrum ársfjórðungi úr 9,1 milljarði á fyrsta ársfjórðungi, sem er mesti hagnaður í sögu bankans, segir í fréttatilkynningu. Hagnaður á öðrum ársfjórðungi í fyrra nam 7,5 milljörðum króna.

?Þessi afkoma, sem er sú besta í sögu bankans, sýnir glögglega styrk bankans. Eftir metafkomu á fyrsta ársfjórðungi er ánægjulegt að sjá að afkoman á öðrum ársfjórðungi er enn betri," sagði Bjarni Ármannsson, forstjóri Glitnis.

Hagnaður eftir skatta var 20,1 milljarður á fyrstu sex mánuðum ársins, samanborið við 10,5 milljarða á sama tímabili.

"Á fyrri hluta ársins, sem hefur einkennst af sveiflum á markaði, er ávöxtun eiginfjár á ársgrundvelli 45,5% og öll afkomusvið bankans skila góðum hagnaði," sagði Bjarni.

Hann sagði bankann leggja mikla áherslu á sterka lausafjár- og eiginfjárstöðu bankans á meðan íslenskt efnahagslíf og umræðan um það alþjóðlega, nær jafnvægi á ný.

"Alþjóðleg fjármögnun móðurfélagsins nam 1,9 milljörðum evra, jafngildi 185 milljarða íslenskra króna. Fjármögnunarþörf ársins 2006 er 600 milljónir evra og er því fjármögnun vegna þess lokið. Það sem af er 2006 nemur langtímafjármögnun 2,4 milljörðum evra," segir í fréttatilkynningunni.

Þóknunartekjur bankans jukust í 5,9 milljarða króna á tímabilinu úr 5,6 milljörðum á fyrsta ársfjórðungi og tæplega þrefaldast á milli ára, segir í tilkynningunni. Þóknunartekjur námu 11,5 milljörðum á fyrstu sex mánuðum ársins samanborið við 3,9 milljarða fyrstu sex mánuði árið 2005.

Hreinar vaxtatekjur fyrir annan ársfjórðung voru 11,5 milljarðar, jukust um 45% frá fyrsta ársfjórðungi þegar þær námu 7,9 milljörðum kr. Á fyrstu sex mánuðum ársins námu hreinar vaxtatekjur 19,4 milljörðum króna, aukning um 100% frá sama tímabili árið áður.

Á fyrstu sex mánuðum ársins myndaðist 42% af hagnaði bankans fyrir skatta af starfsemi utan Íslands eða 10,3 milljarðar af 24,3 milljörðum. Fjárfestinga- og alþjóðasvið skilar 24% af hagnaðinum og er nú í fyrsta sinn það afkomusvið innan bankans sem skilar mestum hagnaði. Starfsemin í Noregi skilar 13% af hagnaði.

Hagnaður á hlut var 0,76 krónur á fjórðungnum og 1,42 krónur á fyrstu sex mánuðum ársins. Arðsemi eigin fjár eftir skatta á ársgrundvelli var 45,5% á fyrstu sex mánuðum ársins en var 37% á sama tímabili í fyrra. Arðsemi eiginfjár eftir skatta án gengishagnaðar og söluhagnaðar vegna Sjóvá hf. var 38% á fyrstu sex mánuðum ársins.

Heildareignir samstæðunnar námu 2.023 milljörðum króna í lok tímabilsins og höfðu þá aukist um 187 milljarða á tímabilinu, eða 10%. Vöxturinn endurspeglar að hluta til gengislækkun íslensku krónunnar. Ef frá eru talin áhrif þeirrar lækkunar og verðbólguáhrif er raunlækkun um 2%. Lánavöxtur var 13% á fjórðungnum mældur í krónum en raunvöxtur 2%.

Eigið fé jókst um 48% á fyrstu sex mánuðum ársins og nam 126 milljörðum króna í lok tímabilsins. Eiginfjárhlutfall á CAD grunni var 13,7%, þar af A-hluti 9,1%.