*

miðvikudagur, 4. ágúst 2021
Innlent 9. nóvember 2004 15:24

Methagnaður hjá Marel

Ritstjórn

Hagnaður Marel á þriðja ársfjórðungi 2004 var 1.394 þúsund evrur (ISK 122 milljón) og hefur ekki áður orðið meiri á þeim fjórðungi í rekstrarsögu Marel. Á sama tíma í fyrra nam hagnaður 53 þúsund evrum (ISK 4 milljónir). Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var á þriðja ársfjórðungi 3.337 þúsund evrur sem er 12,4% af sölu. Rekstrarhagnaður (EBIT) var 2.420 þúsund evrur, 9,0% af sölu.

Á fyrstu níu mánuðum ársins 2004 var hagnaður Marel 5,2 milljónir evra (455 milljónir íslenskra króna), sem er besta afkoma á þessum hluta ársins í sögu félagsins. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 10.699 þúsund evrur sem er 12,9% af sölu. Rekstrarhagnaður (EBIT) var 8.122 þúsund evrur, 9,8% af sölu.

Árshlutauppgjör Marel samstæðunnar fyrir tímabilið janúar til september 2004 var samþykkt á stjórnarfundi Marel hf í dag, 9. nóvember 2004.

Samstæða Marel samanstendur af 15 fyrirtækjum með starfsemi í 10 löndum. Það nýjasta, Marel Chile, hóf starfsemi á þriðja ársfjórðungi 2004.

Reikningsskilaaðferðum hefur verið breytt miðað við síðasta ár, en eru óbreyttar miðað við fyrri ársfjórðunga ársins 2004. Evrópusambandið hefur ákveðið að félögum með hlutabréf skráð í kauphöllum á Evrópska efnahagssvæðinu verði skylt að fara eftir alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (e. IFRS, International Financial Reporting Standards) við gerð reikningsskila sinna frá og með árinu 2005. Marel hefur hafið aðlögun reikningsskila sinna að alþjóðlegum reikningsskilastöðlum, m.a. með breytingum á upplýsingakerfum og innri ferlum. Þetta endurspeglast í framsetningu uppgjörs ársins 2004, en hefur ekki áhrif á rekstrarniðurstöðuna segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.