Írska lágfargjaldaflugfélagið Ryanair birti í dag uppgjör sitt fyrir fyrstu 6 mánuði rekstrarárs síns, eða fyrir tímabilið 1. apríl til 30. september. Félagið skilaði methagnaði á tímabilinu en varaði jafnframt við of mikilli bjartsýni á komandi mánuðum. Hagnaður félagsins þessa 6 mánuði nam um 201,3 milljónum evra en var 175,5 milljónir fyrir sama tímabil í fyrra og jókst því um tæp 15%. Tekjur félagsins jukust úr 596,4 milljónum evra á fyrrihluta rekstrarársins 2003 í 721,1 milljón evra fyrir sama tímabil þessa árs og nemur aukningin því um 21%.

Í Hálffimm fréttum KB banka er bent á að farþegafjöldi félagsins jókst verulega, úr 11,3 milljónum í 14,0 milljónir, eða um 24%. Þessa miklu aukningu í farþegafjölda þakka forráðamenn Ryanair því að ólíkt mörgum öðrum flugfélögum hafi þeir ekki hækkað fargjöld sín til að mæta auknum eldsneytiskostnaði. Forráðamenn félagsins telja að ef eldsneytisverð helst nálægt því verði sem er á markaðinum í dag, eða um og yfir 50 dollurum á tunnu, muni kostnaður Ryanair vegna þessa aukast um 55 milljónir evra umfram áætlanir félagsins á næstu 6 mánuðum. Þess má geta að eldsneytiskostnaður Ryanair fyrstu sex mánuði rekstrarársins nam um 61,9 milljónum evra, eða um 25% af rekstrarkostnaði félagsins á sama tíma.

Ryanair er stærsta lágfargjaldaflugfélag Evrópu. Flugfloti þeirra telur 78 flugvélar og starfsmenn eru um 2.300. Áætlanir félagsins gera ráð fyrir því að farþegafjöldi félagsins á rekstrarárinu verði um 27,5 milljónir.

Byggt á Hálffimm fréttum KB banka.