Volvo sem er næst stærsti trukkaframleiðandi heims kynnti á mánudag metgróða fyrirtækisins á síðasta ársfjórðungi. Jafnframt að aukning hafi verið á markaðshlutdeild Volvo í Norður Ameríku samkvæmt frétt Reuters. Hins vegar hafa hlutabréf lækkað um 5,8% eftir að ljóst var að pantanir hafa ekki staðið undir væntingum og minnkað um 10%. Reyndar lækkuðu hlutabréf líka í keppinautnum Scania um 3,5%.

Tekjur utan skatta jukust og fóru í 5,25 milljarða sænskra króna (657,7 milljónir dollara eða sem svara um 42 milljörðum ísl kr) samanborið við 3,91 milljarð sænskra króna á sama tíma í fyrra.

Var síðasti ársfjórðungur sá besti í sögu fyrirtækisins sem endurspeglaði mikla sölu og mikil afköst í flestum deildum félagsins.

Talsverðar áhyggjur eru samt vegna minni pantana en áður og reiknað með að það fari fljótlega að segja til sín á tekjuhliðinni. Telja menn að í samdrætti geti þá reynst erfitt að réttlæta hátt verð á Volvo bílum.

Á trukkamarkaði heimsins hafa framleiðendur Volvo, DaimlerCrysler (Benz) og Man verið að gera það gott í Norður Ameríku, Asíu og Evrópu síðustu misserin. Methagnaður var á trukkaframleiðslu Volvo 2004 og jókst hann um 20% á síðustu tveim mánuðunum og um 35% það sem af er ári.

Undir trukkadeild Volvo fellur einnig framleiðsla á Mack og Renault trukkum en tekjur jukust í sölu þeirra merkja um 46%, en þar höfðu sérfræðingar spáð allt að 53% tekjuaukningu. Á þessum merkjum hefur pöntunum þó fækkað á síðasta ársfjórðungi um 14% í Evrópu og 18% í Norður Ameríku.

Þrátt fyrir minni pantanir bera talsmenn Volvo sig vel og segja þetta eðlilegt í kjölfar mikllar eftirspurnar í fyrra. Markaðurinn sé nú að jafna sig en staðan sé samt góð.

Forstjóri Volvo, Leif Johansson, segir ljóst að siglt verði inn í árið 2006 með örlítið minni eftirspurn en áður. Það sýni vissulega veikleika sérstaklega í Evrópu en undirliggjandi sé mikil eftirspurn á Ameríkumarkaði á framleiðslu ársins 2005.

Leif Johansson segir að minni eftirspurn hafi líka sína kosti þar sem nú sé hægt að draga úr yfirvinnu í framleiðsludeildum fyrirtækisins. Heildarsala samsteypunnar hefur aukist á milli ára úr 53,3 milljörðum sænskra í 61,1 milljarð. Er það nokkuð umfram væntingar sem gerðu ráð fyrir sölu upp á 58,9 milljarða.

Forstjórinn segir að fyrirtækið haf stefnt á 20% aukningu í Ameríku en endurskoðuð áætlun fyrir Evrópu gerir ráð fyrir 0 til 5% aukningu á þessu ári. Þá hefur einnig verið 25% aukning á veltu vinnuvéladeildar Volvo.