Ljóst er að mikill halli er nú um stundir á vöruskiptum landsmanna en halli á vöruskiptum við útlönd í ágúst síðastlinum nam 6,7 milljörðum. Samtals nemur halli á vöruskiptum fyrstu 8 mánuði ársins alls 27 milljörðum og er hallinn meiri en á sama tíma árið 2000 sem var 22 milljarðar en met halli var í vöruskiptum landsmanna það ár. Á síðastliðnu ári var 6,7 milljarða halli á vöruskiptum landsmanna á fyrstu 8 mánuðum ársins og er því neikvæður viðsnúningur upp á 20 milljarða milli ára.

Í Hálffimm fréttum KB banka er vakin athygli á því að hallinn á vöruskiptum landsmanna að þessu sinni á rætur að rekja til mikils vaxtar í innflutningi en innflutningur hefur aukist um nærri 21% á fyrstu átta mánuðum ársins samanborið við sama tíma í fyrra. Um helming vaxtar innflutning má rekja til innflutnings á fjárfestingarvörum, hrá- og rekstrarvörum. Um þriðjung til aukins innflutnings bifreiða og neysluvara og afganginn til aukningar í innflutningi eldsneytis og matvæla.

Þrátt fyrir fremur hátt gengi hefur útflutningur vaxið um 5,4%. Mest munar um vaxandi útflutning fersks og heils fisks en útflutningur sjávarafurða hefur aukist um 4,4% en 61% af útflutningi landsmanna er sjávarafurðir. Útflutningur iðnaðarvara hefur aukist um 6,4% og munar þar mestu um 36% aukningu í útflutningi á lyfjum og lækningartækjum. Útflutningur áls stendur nánast í stað.

Byggt á Hálffimm fréttum KB banka.