Halli á utanríkisviðskiptum Bandaríkjanna var 166,2 milljarðar dollara á öðrum ársfjórðungi, skv. tölum sem birtar voru í gær. Hallinn nemur nú 5,7% af landsframleiðslunni og hefur aldrei áður reynst svo mikill. Hallinn var meiri en spáð hafði verið, en skv. könnun á vegum Bloomberg var almennt búist við 158,3 milljarða dollara halla. Hátt olíuverð og samdráttur í útflutningi fjárfestingavara hafa aukið við hallann frá því á fyrsta ársfjórðungi, en þá nam hann 147,2 milljörðum dollara.

"Í kjölfar tíðindanna í gær lækkaði gengi dollara gagnvart helstu myntum. Vaxandi viðskiptahalli skyggir á gengi dollara um þessar mundir og skapar þrýsting til lækkunar þess til lengri tíma litið. Hagvöxtur í Bandaríkjunum minnkaði nokkuð á öðrum ársfjórðungi og ef viðskiptahallinn eykst áfram mun það koma niður á vexti bandaríska hagkerfisins á næstu misserum," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.