*

sunnudagur, 20. júní 2021
Innlent 2. júní 2021 09:29

Metinn á allt að 242 milljarða

Í greiningu Fossa markaða er virði Íslandsbanka talið liggja á bilinu 222 til 242 milljarðar króna.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Í greiningu Fossa markaða, sem er ráðgjafi við söluna á hlut ríkissjóðs á Íslandsbanka, er talið að virði bankans liggi á bilinu 222 til 242 milljarðar króna, miðað við rekstraráætlanir um að bankinn hagnist um tæpa 19 milljarða á árinu 2023. Þetta kemur fram í frétt Markaðarins.

Greining Fossa, sem er þó ekki eiginlegt verðmat, áætlar því að virði Íslandsbanka sé talsvært hærra en bókfært eigið fé bankans í lok fyrsta ársfjórðungs sem nam 185,5 milljörðum króna en matið byggist m.a. á því að umfram eigið fé bankans sé um 30 milljarðar.

Í greiningu Jakobsson Capital, sem er sjálfstæður greiningaraðili og ekki ráðgjafi við sölu bankans, er verðmæti Íslandsbanka talið liggja á bilinu 155-218 milljarðar króna en greiningin er sögð viðkvæm fyrir breytingum á mikilvægum forsendum, sér í lagi virkum vaxtamun bankans. Miðað við þær spá liggur gengi bankans á bilinu 0,83-1,17 af bókfærðu eigin fé.

Heimildir Morgunblaðsins herma að Landsbankinn hafi í kynningum sínum lagt upp þrjár sviðsmyndir þar sem grunnmyndin sé gengið 0,93. Gangi það eftir verður markaðsvirði bankans við skráningu 172 milljarðar króna.

Ríkissjóður hyggst selja á bilinu 25 til 35 prósenta hlut í bankanum í hlutafjárútboði síðar í mánuðinum. Í ríkisreikningi er hlutur ríkisins bókfærður á genginu 0,8 miðað við eigið fé.

Stikkorð: Íslandsbanki