Evrópa flytur nú inn stóraukið magn af gasi sjóleiðis eftir að flæði um gasleiðslur hefur nær alfarið stöðvast. Í umfjöllun Financial Times segir að innflutningstölurnar séu merki um að Evrópa reiði sig enn á Rússlandi þegar kemur að jarðefnaeldsneyti.

Innflutningur á fljótandi jarðgasi (e. liquefied natural gas) frá Rússlandi, sem er yfirleitt flutt með stórum tankskipum, frá janúar og október í ár jókst um 40% frá sama tímabili í fyrra. Rússneskt fljótandi jarðgas vó 16% af öllum evrópskum innflutningi sjóleiðis á fyrstu tíu mánuðum ársins.

Taka skal þó fram að fljótandi jarðgas sem flutt frá Rússlandi sjóleiðis nam 17,8 milljörðum rúmmetrum á tímabilinu en til samanburðar nam magnið sem fór í gengum gasleiðslur 62,1 milljarði rúmmetra á sama tímabili.

„Einn daginn mun Pútín vakna upp og segja ‚við þurfum að hætta að senda fljótandi jarðgas til Evrópu‘ og neyða þannig álfuna til að kaupa af enn dýrari stundandarmarkaði,“ hefur FT eftir fræðimanni hjá Center on Global Energy Policy hjá Columbia University.

Rússland gæti þannig beint útflutningi sínum á fljótandi jarðgasi til þjóða á borð við Bangladess og Pakistan á ódýrari verði til að setja þrýsting á Evrópubúa. „Það er mikilvægt að við gleymum ekki að margar þjóðir líða nú fyrir skort á fljótandi jarðgasi.“

Enn sem komið er hefur ekki verið lagt á kaupbann á rússneskt jarðgas vegna mikilvægi þess til orkuöryggis Evrópuþjóða. Rússnesk stjórnvöld hafa dregið verulega úr framboði á gasi í gegnum gasleiðslur frá innrás þeirra í Úkraínu í febrúar til að ýta undir verð með tilheyrandi áhrifum á kaupmátt Evrópubúa.