*

miðvikudagur, 12. maí 2021
Innlent 30. mars 2021 09:31

Metlækkun leiguverðs

Leiguverð á höfuðborgarsvæðinu hefur lækkað um 3,2% á ársgrundvelli, sem er mesta lækkun á einu ári frá upphafi mælinga.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Leiguverð á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 1,5% milli janúar og febrúar síðastliðnum samkvæmt þeim leigusamningum sem þinglýst var í hvorum mánuði fyrir sig. Leiguverð hefur nú lækkað um 3,2% á ársgrundvelli, sem er mesta lækkun á einu ári frá upphafi mælinga. Þetta kemur fram í hagsjá Landsbankans. 

Vextir á íbúðalánum hafa lækkað undanfarið sem hefur auðveldað mörgum kaup og ef til vill minnkað eftirspurn eftir leiguhúsnæði. Á sama tíma hefur framboð af leiguhúsnæði aukist, bæði vegna fækkunar ferðamanna og þar með Airbnb íbúða, en einnig vegna þess að áhersla hefur verið mikil hjá stjórnvöldum að auka framboð leiguíbúða til tekjulægri leigjenda. 

Í júlímánuði 2019 voru þegar mest lét um 3.100 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu nýttar í Airbnb útleigu. Ári síðar var fjöldinn komin niður í 1.700 íbúðir sem enn voru skráðar til útleigu á vefsíðu Airbnb. Fækkun Airbnb íbúða hefur því numið allt að 1.400 milli ára eftir að faraldurinn hófst og má gera ráð fyrir því að mikill fjöldi þeirra hafi ratað í almenna sölu eða útleigu.

Athygli vekur að á sama tíma og verðþróunin hefur verið afar hófleg virðist talsverð hreyfing vera á leigjendum ef marka má fjöldi þinglýstra leigusamninga. Allt að 31% fleiri leigusamningum var þinglýst í hverjum mánuði fyrir sig í fyrra samanborið við sama mánuð árið 2019. Gera má ráð fyrir því að leigusamningi sé þinglýst þegar nýir leigjendur taka við húsnæði eða þegar gildandi leigusamningur rennur út svo dæmi séu nefnd. 

Mestu munaði í ágúst í fyrra þegar 190 fleiri samningum var þinglýst en í sama mánuði árið áður. Tölur fyrstu tveggja mánaða ársins 2021 benda þó til fækkunar milli ára. Í febrúar var tæplega 400 samningum þinglýst samanborið við 490 talsins í febrúar í fyrra.

Stikkorð: Leiguverð