*

fimmtudagur, 15. apríl 2021
Erlent 1. desember 2020 19:02

Metmánuður fyrir hlutabréf vestanhafs

Dow Jones vísitalan hækkaði um tæplega tólf prósent í nóvember sem er mesta mánaðarhækkun vísitölunnar síðan 1987.

Ritstjórn
epa

Hlutabréf vestanhafs hækkuðu talsvert í nýliðnum nóvembermánuði. Dow Jones vísitalan hækkaði um tæplega tólf prósent sem er mesta mánaðarhækkun síðan 1987. S&P 500 vísitalan hækkaði um 10,7% og Nasdaq vísitalan einnig um tæplega tólf prósent. Á sama tíma hækkaði Úrvalsvísistalan (OMXI10) hérlendis um tæplega fimm prósent.

Hækkunin hefur haldið áfram í dag en þegar þetta er skrifað hafa S&P 500 og vísitala Nasdaq báðar hækkað um rúmlega eitt prósent og Dow Jones vísitalan um tæplega eitt prósent. Í mánuðinum bárust fregnir frá þremur fyrirtækjum; Moderna, Pfizer og AstraZeneca þess efnis að bóluefni téðra félaga gegn Covid-19 hafi borið góðan árangur. 

S&P 500 og Nasdaq vísitölurnar hafa aldrei verið jafn háar og Dow Jones er sömuleiðis í hæstu hæðum. S&P 500 vísitalan stendur í um 3.660 stigum og hefur hækkað um tæplega þrettán prósent það sem af er ári. Dow Jones vísitalan hefur hækkað lítillega á þessu ári en Nasdaq vísitalan um ríflega þriðjung á sama tímabili.

Hérlendis hækkuðu hlutabréf Icelandair mest í nýliðnum mánuði eða um 56%, úr 0,9 krónum í 1,4 krónur. Samt sem áður hafa bréf Icelandair lækkað um ríflega 80% það sem af er ári en markaðsverð flugfélagsins er tæplega 40 milljarðar króna.

Stikkorð: hlutabréf S&P 500 Dow Jones