Icelandair flutti í júlí síðastliðnum 540 þúsund farþega í millilandaflugi og voru þeir 10% fleiri en í sama mánuði í fyrra. Samkvæmt tilkynningu frá Icelandair Group er farþegafjöldinn sá mesti í einum mánuði frá stofnun félagsins.

Sætanýting í mánuðinum var 88,4% samanborið við 87,5% í fyrra. Þá fjölgaði framboðnum sætiskílómetrum um 12% á milli ára.

Farþegar Air Iceland Connect voru tæplega 37 þúsund í júlí og fækkaði um 1% á milli ára. Framboð félagsins jókst um 2% samanborið við 2016. Sætanýting nam 69,7% og lækkaði um 1,4 prósentustig á milli ára.

Fjöldi seldra blokktíma í leiguflugi jókst um 15% á milli ára og þá jukust fraktflutningar um 41% frá því á síðasta ári, sem skýrist af aukningu í innflutningi til Íslands og flutningum um Ísland á milli Evrópu og N-Ameríku.

Fjöldi seldra gistinótta á hótelum félagsins fækkaði um 4% á milli ára. Herbergjanýting var 87,4% samanborið við 90,8% í júlí í fyrra.