Wow air flutti 104 þúsund farþega til og frá landinu í júlí eða um 43% fleiri farþega en í júlí árið 2014 sem er metmánuður hjá félaginu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Þar segir að sætanýting hjá flugfélaginu hafi verið 90% í mánuðinum. Framboðnum sætiskílómetrum fjölgaði um 65% í júlí frá því á sama tíma í fyrra.

„Það er magnað að í júlí fluttum við fleiri farþega heldur en allt fyrsta árið okkar 2012. Félagið hefur vaxið gríðarlega og erum við afar þakklát fyrir þær frábæru móttökur sem við höfum fengið frá fyrsta degi,“ segir Skúli Mogensen, stofnandi og forstjóri Wow air.

WOW air flýgur nú til 20 áfangastaða í Evrópu og Norður-Ameríku. Félagið verður með sex flugvélar í flota sínum í sumar en var með fjórar flugvélar síðastliðið sumar. Tvær vélar af gerðinni Airbus A321, þrjár vélar af gerðinni Airbus A320 og eina vél afgerðinni Airbus A319.