LaVar Ball er tæplega fimmtugur fyrrverandi atvinnumaður í amerískum fótbolta. Hann byrjaði reyndar í körfubolta. Hann spilaði í stuttan tíma með Washington State háskóla en það gekk ekkert sérstaklega vel. Hann skoraði að meðaltali 2 stig í leik. LaVar færði sig því yfir í minna þekktan skóla, Cal State en körfuboltalið þess skóla spilar í 2. deild háskólakörfunnar í Bandaríkjunum.

Eftir mjög tíðindalítinn körfuboltaferil reyndi LaVar fyrir sér í amerískum fótbolta. Honum var boðið á æfingar hjá New York Jets í NFL-deildinni og fékk meira að segja samning. Það fór samt aldrei svo að hann spilaði leik fyrir Jets því hann var strax lánaður til London Monarchs, sem lék í hinni skammlífu evrópsku NFL-deild. LaVar lék í eitt ár með London Monarchs en ferillinn koðnaði fljótt niður.

Þrír synir

En hvers vegna er verið að fjalla um LaVar Ball? Jú, það er vegna þess að í allan vetur hefur hann verið tíður gestur í sjónvarpsviðtölum hjá bandarískum íþróttastöðvum. Ástæðan er sú að hann er einhver „metnarfyllsti" faðir síðari tíma og gríðarlega yfirlýsingaglaður. Hann á þrjá stráka, Lonzo, LiAngelo og LaMelo. Lonzo Ball er elstur en hann var í vetur einn allra besti leikmaður bandaríska háskólakorfuboltans. Hann lék með UCLA skólanum en er það sem kallað er í Bandaríkjunum one-and-done, sem þýðir að eftir eitt tímabil í háskólakörfunni ákvað hann að gefa kost á sér í nýliðavali NBA-deildarinnar.
Búist er við því að Lonzo verði valinn mjög snemma enda gríðarlega efnilegur, eins og áður sagði. Flestir búast við því að hann verði valinn þriðji í nýliðavalinu og ef það gengur eftir gæti hann endað hjá Los Angeles Lakers. Yngri strákar LaVar eru enn í menntaskóla.

Stofnaði BBB

Flestir ungir og efnilegir körfuboltaleikmenn í Bandaríkjunum fá strax samning hjá einu af stóru merkjunum; Nike, Adidas, Reebok, Under Armour eða Puma. LaVar er nú aldeilis ekki á því að strákarnir hans gangi þá leið því hann hefur stofnað fyrirtækið Big Baller Brand eða BBB . Segja má að fyrirtækið sé stofnað fyrir strákana.

LaVar þykir yfirlýsingaglaður með eindæmum. Í mars lét hann hafa eftir sér að Lonzo væri betri leikmaður en Stephen Curry og stuttu seinna bætti hann um betur og sagði að strákurinn væri betri en LeBron James. Sjálfur skoraði hann skoraði hann á Michael Jordan að spila við sig einn á einn. Sagði hann að í gamla daga hefði hann verið betri en Jordan. Þessi orð lét hann falla þrátt fyrir að allir viti að hann hafi skorað 2 stig að meðaltali í leik með Washington State háskóla, en skólinn er ekkert sérlega hátt skrifaður í körfuboltaheiminum.

Svona yfirlýsingar hafa komið LaVar í alla helstu fjölmiðla Bandaríkjanna, sem er merkilegt því fyrir nokkrum mánuðum síðan vissi í raun enginn hver LaVar eða sonur hans væru. Eftir að tímabilið í háskólakörfuboltanum hófst í október og Lonzo fór að standa urðu þeir feðgar fljótt mjög þekktir og er það ekki síst vegna þess hversu mikið LaVar hefur haft sig í frammi í fjölmiðlum. Steve Kerr, þjálfari Golden State Warriors hrósaði honum fyrir að koma sér í sviðsljósið en sagðist reyndar hafa efasemdir um að þetta leikrit myndi hafa góð áhrif á syni hans.

Fokdýrir skór

Fyrir nokkrum dögum voru fyrstu körfuboltaskórnir frá BBB kynntir í Bandaríkjunum. Óhætt er að segja að markaðssetningin hafi vakið athygli því BBB ZO2 skórnir, sem nefndir eru eftir Lonzo, kosta 495 dollara eða 52 þúsund krónur. Ef þú vilt fá skóna með eiginhandaráritun Lonzo þá kosta þeir 1.000 dollara eða 105 þúsund krónur. BBB inniskór, töfflur, kosta meira að segja 220 dollara eða 23 þúsund krónur.

Verðmiðinn á skónum hefur sætt mikilli gagnrýni enda kosta Under Armour skórnir, sem nefndir eru eftir Stephen Curry, litla 100 dollara og Nike skórnir, sem nefndir eru eftir LeBron James, fást á 100 til 175 dollara. Curry og James eru tveir bestu leikmenn NBA-deildarinnar en Lonzo er ekki enn kominn í deildina og á alveg eftir að sanna sig.

LaVar er ekki mikið að velta þessari gagnrýni fyrir sér. Hann segir einfaldlega að ef þú hafi ekki efni á að kaupa skóna þá sértu ekki í stóra liðinu eða „If you can't afford the ZO2's, you're nota  BIG BALLER," voru skilaboðin sem LaVar sendi frá sér í Twitter.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .