Tölvuleikjaframleiðandinn Epic Games [Epic], sem er þekktastur fyrir Fortnite, hefur tryggt sér 2 milljarða dala fjármögnun frá Sony og fjárfestingarhóp á bakvið Lego. Þetta kemur fram í grein hjá Financial Times.

Epic, sem er með höfuðstöðvar sínar í Norður-Karólínu fylki í Bandaríkjunum, fékk einn milljarð dala frá japanska afþreyingarfyrirtækinu Sony og annan milljarð dala frá fjárfestingarfyrirtækinu Kirkbi, sem er á bak við Lego Group. Eftir fjármögnunina mun Kirkbi eiga 3% hlut í Epic en Sony 4,9% hlut, og er Epic metið á 31,5 milljarða dali.

Lego og Epic tilkynntu nýverið að þau hefðu gert samning um að skapa svokallað „metaverse" sérstaklega hannað fyrir börn. Tim Sweeney, forstjóri og stofnandi Epic, sagði í samtali við FT að fjármögnunin muni hraða uppbyggingu á metaverse heiminum sem Epic vill skapa í samstarfi við Lego.

Sony hafði áður fjárfest í Epic. Í júlímánuði 2020 keypti félagið 250 milljón dala hlut í Epic og bætti síðan við 200 milljónum dala í apríl 2021. Samtals hefur Sony því fjárfest 1,45 milljörðum dala í Epic á undanförnum tveimur árum.

Sjá einnig: Stærstu kaup í sögu Microsoft

Miklar fjárfestingar og samrunar hafa verið í tölvuleikjaheiminum að undanförnu, og er „metaverse" drifkraftur í þeirri þróun. Fyrr á árinu keypti Microsoft tölvuleikjafyrirtækið Activision Blizzard fyrir 75 milljarða dala, eða sem nemur 9.619 milljörðum króna. Um var að ræða langstærstu fyrirtækjakaup í sögu Microsoft.

Activision Blizzard hefur framleitt marga tölvuleiki sem hafa farið sigurför um heiminn og nægir í því samhengi að nefna leiki á borð við Crash Bandicoot, World of Warcraft, Call of Duty, Diablo, Candy Crush og Overwatch.