Ríflega 150 milljarðamæringar koma nú saman í Kína. Þeir eiga það allir sameiginlegt að vera meðlimir í löggjafasamkundu hjá þessu stærsta kommúnistaríki heimsins. Auðæfi ríkustu 209 meðlima samkundunnar eru metin á yfir 500 milljarða dollara eða því sem samsvarar um 53.600 milljörðum íslenskra króna ef tekið er mið af gengi dagsins í dag. Þessar tölur eru byggðar á Hurun skýrslunni , þar sem tekið er saman ríkidæmi kínverskra einstaklinga.

Er það á við verga landsframleiðslu ríkja á borð við Svíþjóð, Nígeríu eða Belgíu að því er kemur fram í frétt CNN Money um þessara kínversku milljarðamæringa. Fulltrúar löggjafans koma nú saman til þess að skrifa undir lög í Kína eða öllu heldur að samþykkja lög sem hafa þegar verið ákveðin.

Þegar litið er til einstaklinga á samkomunni þá ber helst að nefna „Pony“ Ma Huateng, stofnandi og forstjóri kínverska tæknirisans Tencent, sem er ríkastur af þátttakendum þingsins. Auðævi hans eru metin á 24 milljarða dollara. „Robin“ Li Yanhong, forstjóri Baidu, er einnig meðal þeirra ríkustu og er metinn á 14 milljarða dollara.

Samkundurnar eru aðallega táknrænar þó að það fari fram atkvæðagreiðsla. Yfirleitt samþykkja þingmennirnir einfaldlega tillögur Kommúnistaflokksins í Kína.