Lækkun á hlutabréfamörkuðum víða um heim virðist ekki enn vera farin að koma niður á framleiðendum lúxusvara. Alla vega ekki ef marka má viðtökur á sportbíl sem Rolls Royce kynnti á dögunum og kallast Phantom Coupe.

Á fyrstu vikunni frá því að bíllinn var kynntur voru pantaðir alls 200 bílar. Framleiðsla á hverju eintaki af Rolls Royce er tímafrek og þetta þýðir að þeir kaupendur sem koma núna verða að bíða fram á mitt ár 2009 til að fá úthlutað bíl.

Fyrsti sportbíll RR

Phantom Coupe-bíllinn er tveggja dyra og nokkuð sportlegur að sjá. Því hafa fjölmiðlar margir talað um hann sem fyrsta sportbílinn frá Rolls Royce, en þessi virti breski bílaframleiðandi hefur hingað til aðeins framleitt bíla sem flokkast undir límósínur.

Ian Robertsson, forstjóri Rolls Royce, vill þó ekki viðurkenna að um hreinræktaðan sportbíl sé að ræða heldur frekar einhvers konar millistig af sportbíl og límósínu. Þessi blanda virðist hitta í mark hjá nýjum kaupendahópi því tveir þriðju hlutar þeirra sem pantað hafa Phantom Coupe-útgáfuna hafa aldrei átt Rolls Royce áður.

Phantom Coupe er hinn fullkomni fararskjóti í lengri ferðir og að sögn Rolls Royce er hann kjörinn í ferðir milli heimsálfa. Undir húddinu er 6,75 lítra, V12 vél sem skilar 453 hestöflum og 720 Nm í tog en eyðir þó fjórðungi minna en Phantom Drophead (blæjuútgáfa), sem bætir langdrægnina þó nokkuð. Innandyra eru öll helstu þægindi sem Rolls Royce-eigendur eiga að venjast.

Markmiðið er að bæði ökumaður og farþegar eigi að geta stigið út úr bílnum eftir heilan dag í akstri án þess að finna fyrir þreytu eða þurfa að slétta föt sín. Það er ekki ónýtt fyrir heimsborgara búsettan í Lundúnum sem vill skjótast dagsferð yfir á meginlandið og skella sér í spilavítið í Mónakó.