Mercedes-Benz seldi fleiri bíla árið 2012 en nokkru sinni í 126 ára sögu fyrirtækisins. Alls seldi þýski lúxusbílaframleiðandinn 1.320.097 bíla á árinu, sem er 4,5% aukning frá árinu 2011. Sala á Mercedes-Benz bílum var mest í Bandaríkjunum en þar seldi lúxubílaframleiðandinn 11,8% fleiri bíla en árið 2011. Kreppa er tekin að segja til sín á heimamarkaði fyrirtækisins í Þýskalandi því þar varð 0,4% samdráttur frá árinu áður. Í Evrópu varð aðeins 0,6% aukning sem skýrist af erfiðleikum kreppunnar m.a. á Spáni, Ítalíu, Portúgal og Grikklandi. Þá varð aukningin aðeins í Kína 1,5%.

„Við erum mjög ánægð með góðan árangur á árinu 2012. Þrátt fyrir erfiðaleika á mörgum markaðssvæðum, sérstaklega í Suður-Evrópu, tókst okkur að selja fleiri bíla á einu ári en nokkru sinni áður í langri ára sögu fyrirtæksins. Nýr A-Class náði ótrúlega góðum árangri en bíllinn kom á markað í haust og nýr B-Class hefur einnig náð góðri sölu. Fleiri nýir bílar frá fyrirtækinu hafa einnig komið vel út í sölu og það eru spennandi tímar framundan hjá Mercedes-Benz,“ segir Dr. Dieter Zetsche, forstjóri Daimler AG.