Bifreiðaframleiðandinn Rolls-Royce seldi á síðasta ári í fyrsta sinn í 111 ára sögu fyrirtækisins fleiri en 4.000 bíla á ársgrundvelli. BBC News greinir frá.

Þetta er fimmta árið í röð sem fyrirtækið setur sölumet, en alls seldust 4.063 bílar á árinu og er það 12% meira en ári fyrr. Sala í Bandaríkjunum jókst um nær þriðjung, í Evrópu jókst hún um 40% og í Mið-Austurlöndum um 20%.

Torsten Muller-Otvos, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir í samtali við BBC að um 80% af kaupendunum hafi verið frumkvöðlar og fyrirtækjaeigendur, og eftirspurn eftir lúxusbifreiðunum haldi áfram að vera mikil á heimsvísu.

Fyrirtækið kveðst hafa selt fleiri bíla á árinu sem eru virði meira en 200 þúsund evra, jafngildi um 31 milljón króna, en nokkur annar samkeppnisaðili þess.