Samkvæmt nýjum tölum Matvælastofnunnar jókst salan á lambakjöt innanlands í nóvember um 31,8% miðað við sama mánuð í fyrra. Sé litið til þriggja mánaða sölu, þ.e. september, október og nóvember, blasir við við 6,8% söluaukning miðað við sama tímabil í fyrra. Sala síðustu 12 mánaða er upp um 5,8%. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Markaðsráði kindakjöts.

Haft er eftir Svavari Halldórssyni, framkvæmdastjóra markaðsráðsins, að hann hafi ekki séð annan eins kipp í einum mánuði frá því að hann byrjaði. „Þetta er algjört met,“ segir Svavar. „Við lítum yfirleitt alltaf á þriggja mánaða töluna sem gefur bestu myndina af því sem raunverulega er að gerast og hún er mikið fagnaðarefni,“ bætir hann við.

Margir samverkandi þættir hafa stuðlað að þessum góða árangri er haft eftir Þórarni Inga Péturssyni, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda. Afurðarstöðvar hafi þróað nýjar vörur og verð á lambakjöti sé mjög hagstætt hér á landi. „Langbesti markaðurinn okkar er hér innanlands og Íslendingar eru meðvitaðir um að lambakjötið er þjóðarrétturinn.“ Svo má auðvitað ekki gleyma því að lambakjötið er vinsælasti jólamaturinn. Hangikjötið ber höfuð og herðar yfir allt annað á jóladag á borðum Íslendinga samkvæmt rannsóknum. „Svo sjáum við að lambalæri er í mikilli sókn miðað við sölutölur.“