Hvorki meira né minna en 1.210 tonn seldust af kindakjöti í október síðastliðnum. Þetta er 8,7% aukning á milli ára en í október í fyrra nam salan 1.113 tonnum. Fram kemur í Bændablaðinu í dag að aldrei hafi selst meira af kindakjöti í einum mánuði á öldinni, þ.e. að segja á þeim tæpu 14 árum sem liðin eru af öldinni.

Í blaðinu segir að ef miðað er við 12 mánaða tímabil frá byrjun nóvember 2012 til októberloka 2013 þá hafi sala á lambakjöti aukist um 5,1% samkvæmt tölum Landssamtaka sláturleyfishafa. Á sama tíma jókst sala á kjöti um 2,9%.

Blaðið setur jafnframt sölu á kindakjöti í samræmi við annað kjöt. Þar kemur fram að alifuglakjöt var með mestu markaðshlutdeildina eða 31,4% á síðustu 12 mánuðum og kindakjöt þar á eftir með 27,1% hlutdeild. Þar á eftir var markaðshlutdeild nautakjöts 16,5% og loks hrossakjöt með 2,6% markaðshlutdeild.