Metsala var á Rolls Royce bílum árið 2021, en salan jókst um 49% frá árinu áður. Þetta kemur fram í grein hjá The Times. Ódýrasti Rolls Royce bíllinn kostar um 240 þúsund pund eða 42 milljónir króna.

Rolls-Royce Motors Cars, sem er í eigu þýska bílaframleiðandans BMW, seldi 5.568 bíla í fyrra, sem er 49% aukning frá 2020 þegar félagið seldi 3.750 bíla, en kórónuveirufaraldurinn hafi mikil áhrif á framleiðsluna árið 2020.

Torsten Müller-Ötvös, forstjóri Rolls-Royce segir í samtali við The Times að Covid-19 hafi haft mikil áhrif á reksturinn á árinu, á góðan hátt. Viðskiptavinir Rolls hafi ekki getað ferðast eins mikið og áður og hafi ekki getað eytt peningnum sínum í lúxusvörur í sama mæli og áður. Því hafa viðskiptavinir fyrirtækisins safnað miklum peningi í faraldrinum og ákveðið að kaupa sér annan Rolls bíl, en hann segir meirihluta Rolls bílaeigenda eiga fleiri en einn bíl.