Landsframleiðsla Kína féll um 6,8% á fyrsta ársfjórðungi samkvæmt opinberum hagtölum þar í landi. Þetta er í fyrsta sinn sem frá því að kínversk stjórnvöld hófu að gefa út ársfjórðungslegar hagvaxtartölur árið 1992 að samdráttur mælist í landinu.

Til samanburðar var 6% hagvöxtur í Kína á fjórða ársfjórðingi síðasta árs. Samdrátturinn er þó minni en hagfræðingar sem WSJ ræddi við sem bjuggust við 8,3% samdrætti.

Bent hefur verið á að taka þurfi opinberum tölum frá kínverskum stjórnvöldum með fyrirvara. Kínversk stjórnvöld hafa gefið út að dauðsföll í Wuhan sökum kórónuveirunnar séu nú talin 50% hærri en opinberar tölur í Kína höfðu hingað til sagt til um. Nú segja heilbrigðisyfirvöld 3.869 hafa látist í Wuhan sökum kórónuveirunnar og 4.632 í öllu Kína. Ekki hafi tekist að flokka öll dauðsföll með réttum hætti þegar álagið á heilbrigðiskerfið var sem mest í borginni.