Samdráttur var á hagkerfi Singapúr á síðasta ársfjórðungi en ferðatakmarkanir og aðrar kvaðir hafa haft veruleg áhrif á rekstur fyrirtækja og dregið verulega úr smásölu. Bloomberg greinir frá .

Verg landsframleiðsla féll um 41,2% milli fyrsta og annars ársfjórðungs, samkvæmt tilkynningu viðskipta- og iðnaðarráðherra, sem er jafnframt mesti samdráttur milli ársfjórðunga frá skráningu gagna. Landsframleiðslan féll um 12,6% á öðrum ársfjórðungnum samanborið við sama tímabil í fyrra.

Heimsfaraldurinn hefur leitt til minni alheimsviðskipta sem bítur verulega í hið útflutningsháða hagkerfi Singapúr. Sala í smásölu hefur einnig lækkað verulega en um 52% samdráttur var í sölu í maí samanborið við sama mánuð árið áður.

Samanburður við Asíuþjóðir sem birta fjórðungsleg gögn yfir verga landsframleiðslu gefa til kynna að samdrátturinn sé töluvert meiri í Singapúr. Til að mynda dróst hagkerfi saman um 20% milli fyrsta og annars ársfjórðungs.

Horfur singapúrska hagkerfisins hafa sett aukna pressu á ríkjandi PAP-flokkinn sem átti sína verstu kosningu í sögunni í síðustu viku. Ríkisstjórnin hefur heitið 93 milljörðum singapúrskra dollara, eða 9.380 milljörðum íslenskra króna, í örvunaraðgerðir til að styðja við fyrirtæki og heimili.