Daniel T. Jones, höfundur bókarinnar Lean Thinking, er aðalfyrirlesari á ráðstefnunni Lean Ísland 2013 7. maí næstkomandi. Daniel T. Jones er höfundur metsölubókarinnar sem kynnti heiminn fyrir Lean-stjórnun Toyota fyrirtækisins. Bókin Lean Thinking : Banish Waste and Create Wealth in Your Corporation, sem fyrst kom út árið 1996, varð til þess að stjórnunaraðferðir í anda Toyota breiddust út um allan heim og er hún á lista yfir mest seldu stjórnunarbækurnar hjá Amazon.com bókabúðinni.

Fram kemur í tilkynningu um málið að á meðal þeirra fyrirtækja sem beita Lean-stjórnun á Íslandi eru Össur, Marel og Landspítalinn. Meðan Daniel T. Jones dvelur hér á landi mun hann heimsækja þessa aðila og kynna sér reynslu þeirra af því að tileinka sér Lean-stjórnun.

Þá segir í tilkynningunni að í nýlegri skýrslu sem McKinsey ráðgjafarfyrirtækið gerði um vaxtarmöguleika Íslands kom fram að framleiðni á væri mjög lítil Íslandi. Skýrslan segir að Íslendingar vinni mjög mikið en meira þurfi að koma út úr vinnu þeirra. Aðstandendur ráðstefnunnar hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Spretti telja að Lean-hugmyndafræðin geti gagnast öllum, bæði litlum og stórum fyrirtækjum. Búist er við að nokkur hundruð íslenskir stjórnendur og sérfræðingar mæti á ráðstefnuna til að hlýða á Jones og fleiri fyrirlesara.