„Salan í versluninni hefur aukist um 50-60% fyrstu sjö mánuðina frá síðasta ári sem þó var metár hjá okkur,“ segir Hans Vihtori Henttinen, annar eigenda Golfskálans. „Verslunin hefur gengið mjög vel ef frá er talið tímabilið fyrir páskana þegar samkomubannið vegna Covid var sett á.“

Að sögn Hans hefur verið mikið um nýliða í golfinu hér heima sem þurfa vörur af öllum toga, hvort sem það eru kylfur, fatnaður, boltar eða aðrir fylgihlutir. Einnig hafa þeir kylfingar, sem ætluðu í golfferðir í vor, verið fastir á Íslandi og þá kemur meiri umferð á golfvelli og golfverslanir hér heima, bætir hann við.

„Við höfum aldrei selt jafn mikið af inniæfingatækjum, t.d. púttmottur, eins og í vor þegar allir voru lokaðir inni. Það voru allir inni að æfa sig,“ segir Hans. Á móti kemur að sala datt niður á öðrum vörum líkt og ferðapokum.

Slegist um vörur hjá birgjum

„Nýliðun í golfi hefur verið mikil í flestum löndum Evrópu og á sama tíma hafa margir framleiðendur ekki náð að anna eftirspurn sökum Covid. Það hefur verið slegist um vörurnar hjá sumum framleiðendum en sem betur fer þá erum við að komast á beinu brautina með að geta annað eftirspurninni hjá okkur. Það eru þó einstaka vörutegundir sem eru illfáanlegar og uppseldar eitthvað fram á haustið.“

Hans tók einnig eftir mikilli aukningu meðal krakka sem voru að byrja í golfi núna í sumar. „Við höfum aldrei nokkurn tímann selt jafn mikið af barnakylfum og barnasettum. Það hefur vantað svolítið undanfarin ár að fá unga fólkið inn. Á síðustu mánuðum hefur verið mikið um börn og unglinga hjá okkur sem er frábært fyrir íþróttina.“

Þær kylfur sem hafa verið vinsælastar þetta árið eru frá Callaway, Ping og Cobra. „Þetta er örugglega um 70% af kylfusölunni hjá okkur. Sala byrjendasetta hefur verið mikil í ár og þar hafa settin frá Cobra og MacGregor verið vinsælust.“

Hans segir að Odyssey pútterarnir, í eigu Callaway, séu stærsta merkið í pútterum og hafa verið lengi. Evnroll er þó „heitasta“ merkið í pútterum núna en þeir hafa verið vinsælastir í Golfskálanum síðustu þrjú árin.

Haustferðirnar í hættu

Auk verslunar, rekur Golfskálinn einnig ferðaskrifstofu sem býður upp á golfferðir. Hans segir að um 300 kylfingar hafi átt bókaðar ferðir í vor sem duttu allar út vegna faraldursins og þeir sem óskuðu eftir endurgreiðslu fengu endurgreitt. Haust- og áramótaferðir eru í biðstöðu vegna ástandsins en það skýrist í lok ágúst hvort af þeim verður.

Í fyrra voru um þúsund farþegar í ferðunum hjá þeim, sem skiptust nokkuð jafnt á milli vors og hausts en að hans sögn vilja Íslendingar vera heima á sumrin að spila. Mikill fjöldi af kylfingum á bókaðar ferðir í haust sem útlit er fyrir að verði blásnar af.

„Það gæti farið þannig að það verða engar ferðir þetta árið og við verðum þá bara að vona að næsta vor verði ástandið orðið það gott að íslenskir kylfingar geti aftur farið að spila golf í sólinni á Spáni,“ sagði Hans að lokum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .