Norski olíusjóðurinn, stærsti þjóðarsjóður heims, tapaði 174 milljörðum dala á fyrri helmingi ársins sem samsvarar 14,4% neikvæðri ávöxtun. Til samanburðar skilaði olíusjóðurinn 14,5% ávöxtun árið 2021.

„Markaðurinn hefur einkennst af hækkandi stýrivöxtum, mikilli verðbólgu og stríðinu í Evrópu,“ sagði Nicolai Tangen, forstjóri olíusjóðsins, í tilkynningu. „Fjárfestingar í hlutabréfum [sem vega um 68,5% af heildareignum sjóðsins] hafa lækkað um 17%. Hlutabréf í tæknifyrirtækjum hafa komu sérstaklega illa út með 28% neikvæðri ávöxtun.“

Eignir í öllum geirum að undanskildum orkugeiranum skiluðu tapi á fyrri árshelmingi. Ávöxtun af eignum olíusjóðsins í orkugeiranum var jákvæð um 13% sem rekja má til verðhækkana á olíu og jarðgasi.

Markðsvirði norska olíusjóðsins í milljörðum norskra króna. Mynd tekin úr uppgjöri sjóðsins.
Markðsvirði norska olíusjóðsins í milljörðum norskra króna. Mynd tekin úr uppgjöri sjóðsins.

„Sjóðurinn er orðinn svo stór að fjárhæðirnar sem um ræðir eru gífurlega stórar […] En við erum langtímafjárfestar og verðum að þola sveiflur af þessum toga,“ hefur Financial Times eftir Tangen. „Það sem er óvenjulegt við aðstæðurnar núna er að við erum að tapa peningum af bæði hlutabréfum og skuldabréfum.“

Sjá einnig: Aldrei upplifað meiri „fyrirtækjagræðgi“

Hlutabréfaeign norska olíusjóðsins samsvarar 1,5% hlut í hverju einast skráða félagi í heiminum. Heildarvirði eigna sjóðsins námu 11.657 milljörðum norskra króna í lok júní eða sem nemur 156,5 þúsund milljörðum íslenskra króna.

Ársfjörðungsleg ávöxtun norska olíusjóðsins á síðasta áratug.
Ársfjörðungsleg ávöxtun norska olíusjóðsins á síðasta áratug.