Ávöxtun norski olíusjóðsins var neikvæð um 14,1% árið 2022. Sjóðurinn tapaði því um 1.637 milljörðum norskra króna, eða sem nemur 23 þúsund milljörðum íslenskra króna, á síðasta ári.

„Markaðurinn varð fyrir áhrifum af stríðinu í Evrópu, hárri verðbólgu og vaxandi stýrivöxtum. Þetta hafði neikvæð áhrif á bæði hluta- og skuldabréfamarkaðnum á sama tíma sem er mjög óvenjulegt. Allir geirar skiluðu neikvæðri ávöxtun á hlutabréfamörkuðum að orkugeiranum undanskildum,“ segir Nicolai Tangen, forstjóri sjóðsins.

Um er að ræða mesta tap í krónum talið á einu ári í sögu norska olíusjóðsins. Til samanburðar tapaði hann 633 milljörðum norskra króna árið 2008. Ávöxtun sjóðsins var þó neikvæð um 23,3% árið 2008.

Í tilkynningu á vef sjóðsins segir að ávöxtun af hlutabréfasafni hans hafi verið neikvæð um 15,3% og ávöxtun af skuldabréfasafni sjóðsins var neikvæð um 12,1%. Þá var ávöxtun af fjárfestingum í óskráðum fasteignaverkefnum jákvæð um 0,1%. Auk þess skiluðu fjárfestingar í innviðum tengdum endurnýjanlegum orkugjöfum 5,1% ávöxtun.

Markaðsvirði norska olíusjóðsins nam 12.429 milljörðum norskra króna um áramótin eða um 175 þúsund milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins. Hlutabréf vega um 70% af eignasafni sjóðsins, skuldabréf um 27,5% og óskráð fasteignaverkefni 2,7%.