Wachovia bankinn, sá fjórði stærsti í Bandaríkjunum, tapaði 8,86 milljörðum Bandaríkjadala á öðrum ársfjórðungi. Bankinnn hefur minnkað arðgreiðslur og segist ætla að fækka starfsmönnum um 10.700.

Hlutabréf bankans hafa lækkað um 2,6% það sem af er degi á bandarískum markaði.

Tap bankans jafngildir 4,2 dala tapi á hlut á fjórðungnum, en á sama tímabili í fyrra nam hagnaður bankans 1,2 dölum á hlut. Inni í tapinu eru afskriftir á viðskiptavild upp á 6,1 milljarð dala.

Arðgreiðslur voru lækkaðar um 87%, niður í 5 sent á hlut. Áður stóð til að greiða út 37,5 sent á hlut.

Bankinn hyggst segja upp 6.350 manns, sem er um 5% af öllu vinnuafli hans. Einnig verður ekki ráðið í nýjar stöður og samningum við verktaka verður rift sem jafngildir fækkun um 4.400 störf.