*

fimmtudagur, 27. janúar 2022
Innlent 14. janúar 2022 17:41

300 manns með í Gullegginu

Um 300 þátttakendur skráðu sig í frumkvöðlakeppnina Gulleggið sem fer fram í fimmtánda skiptið um helgina.

Ritstjórn
Frá Gullegginu sem var haldið árið 2019.
Eyþór Árnason

Gulleggið, stærsta og elsta frumkvöðlakeppni Íslands er nú haldin í fimmtánda skiptið um helgina en um 300 þátttakendur skráðu sig í keppnina í ár.

Beint streymi verður um helgina frá fundarsal Grósku í gegnum vefsíðu Gulleggsins. Sérfræðingar úr atvinnulífinu munu stíga inn í beina útsendingu og fara yfir mál eins og mótun hugmyndir, markaðssetningu, stuðningsumhverfið, fjármögnun og Fræ styrkinn svo eitthvað sé nefnt.

Skráningu í keppnina lauk á miðnætti í gær. Nú hefst vinna hjá teymunum að undirbúa svokallað „pitch deck“ eða að setja hugmynd fram í einfaldri kynningu sem tekur á öllum megin þáttum. Kennslan verður í höndum Icelandic Startups, umsjónaraðila keppninnar, en til liðs við Gulleggið kemur fjöldi reyndra frumkvöðla og sérfræðinga úr atvinnulífinu.

Keppast um að komast í topp 10

Til þess að eiga möguleika á því að komast í topp 10 og keppa á stóra sviðinu í Grósku þann 4. febrúar verða teymin að hafa skila inn kynningu á hugmynd sinni fyrir miðnætti 21. janúar.

„Það er til mikils að vinna því Gulleggið hefur verið stökkpallur fyrir fjölmörg íslensk fyrirtæki. Má þar sem dæmi nefna Controlant, Meniga, Pay Analytics, Genki og fjölmörg önnur,“ segir í tilkynningu Gulleggsins. 

Alls styðja 26 fyrirtæki og stofnanir Gulleggið, þar af eru 8 bakhjarlar og 18 styrktaraðilar, sem leggja lóð sín á vogarskálarnar með fjármagni og sérfræðiþekkingu til að tryggja framgang keppninnar. Fulltrúar þeirra eiga jafnframt sæti í dómnefnd Gulleggsins. Bakhjarlar og styrktaraðilar. 

Gullegginu er af stórum hluta stýrt af sjálfboðaliðum úr röðum nemenda. Árlega skipar verkefnastjórn keppninnar um tólf nemendur á vegum nýsköpunar og frumkvöðlanefnda Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík, Háskólans á Akureyri og Listaháskóla Íslands. Þessi hópur er skipaður til eins árs í senn og tekur þátt í fjölbreyttum verkefnum Icelandic Startups út skólaárið.