Alls fóru 2.066.586 ökutæki í gegnum Hvalfjarðargöngin árið 2015 en aldrei hafa jafn mörg ökutæki farið um göngin frá því að þau opnuðu árið 1998. Fyrra metið var slegið árið 2007 þegar 2.036.222 ökutæki fóru um göngin.

Samkvæmt vefsíðu Spalar ehf., rekstraraðila ganganna, fóru samtals 2.048.032 ökutæki þar sem greitt var veggjald fyrir en ekkert veggjald var innheimt í verkfalli starfsmanna í gjaldskýlinu.

Að sögn Gylfa Þórðarsonar, framkvæmdastjóra Spalar, er ástæðan fyrir þessum mikla vexti að megninu til vegna aukins fjölda ferðamanna um landið. Þótt hann viðurkenni að erfitt sé að spá fyrir um umferðina býst hann við því að það verði jafnvel enn meiri aukning á þessu ári.

Spölur skilaði ársreikningi í dag en þar kom fram að hagnaður fyrirtækisins eftir skatta á síðasta ári nam 461 milljónum króna, en hann var 445 milljónir árið áður.