Greiningarfyrirtækið Jakobsson Capital metur virði bréfa Icelandair 49% yfir gangvirði þeirra við lokun markaða á föstudag, eða 2,24 krónur á hlut samanborið við 1,50 krónu gangvirði.

Miðað við verðmatið er heildarmarkaðsvirði félagsins yfir 63 milljarðar króna, eða um 21 milljarði meira en á markaði í dag. Horfur félagsins eru sagðar betri en við síðasta verðmat, þótt enn séu þær lakari en það sem lagt var upp með í fjárfestakynningu í aðdraganda hlutafjárútboðs félagsins í fyrra.

Í matinu er gert ráð fyrir að bæði sumarið og haustið verði gott, samhliða aukningu umsvifa á ný. Á seinni hluta spátímabilsins, 2023-24 er hins vegar gert ráð fyrir ögn minni tekjum en í síðustu spá, vegna aukinnar samkeppni. Óvissa í rekstri félagsins er þó áfram sögð mikil.