Greiningarfyrirtækið Jakobsson Capital telur að verðmæti Play sé um 31 króna á hlut en útboðsverð verður á bilinu 18 til 20 krónur.

Jakobsson telur að markaðsvirði Play sé um 175,1 milljón dollarar, um 21 milljarður króna, og að rekstrarhagnaður verði um 35 milljónir dollarar í lok ársins 2025. Verðmatið er unnið á nafngrunni og reiknar með 3,8% framtíðarvexti og 13,5% vegnum fjármagnskostnaði (WACC). Lítið má út af bregða til þess að verðmatsgengi félagsins breytist. Telji fjárfestar til að mynda að framtíðarvöxtur sé prósentustigi minni lækkar gengi félagsins niður í 27 krónur.

Áhættusamur rekstur

Ljóst er að fjárfestingum í flugfélögum fylgir mikil áhætta en ótal breytur gætu haft áhrif á gengi félagsins. Sviðsmynd Jakobsson Capital gerir ráð fyrir hægari tekjuvexti en í forsendum Play sem heldur aftur af tekjuvexti og hagnaðarhlutfalli.

Búist er við auknum launaþrýstingi samfara hröðum vexti flugmarkaðarins, styrkingu krónu, að samkeppni muni þrýsta verðum niður og hækkun eldsneytiskostnaðar og leiguverðs flugvéla. Þá á eftir að taka heimsfaraldurinn inn í reikninginn en alls er óvíst hvenær verði búið að ráða niðurlögum hans.

Sjá einnig: „Óvissan er gríðarleg“ hjá Play

Nái rekstrarhagnaður Play 50 milljón dollurum í lok spátímabils, líkt og stjórnendur Play gera ráð fyrir í sinni sviðsmynd, hækkar verðmatsgengið í 52,3 krónur. Verði hins vegar annað flugfélag stofnað hér á landi gæti rekstrarhagnaður Play orðið allt að 40% lægri. Þá yrði rekstrarhagnaður rétt um 5 milljónir dollara í lok ársins 2025 og hagnaður yrði ekki fyrr en á fjórða ári. Þá yrði verðmatsgengið aðeins um 7,7 krónur á hlut.

Tvær áskriftarleiðir í boði

Sviðsmynd Play gerir ráð fyrir tapi á þessu ári fyrir um fimmtán milljónir dollara en hagnaði í kjölfarið. Þá er búist við 43 milljón dollara hagnaði árið 2025 og að félagið verði komið með 15 flugvélar í notkun á þeim tíma.

Boðið verður upp á tvær áskriftarleiðir í útboði Play sem verður haldið í næstu viku. Útboðið skiptist í tvær bækur, tilboðsbók A og B. Í tilboðsbók A verða 64 milljónir hluta í boði á verðinu 18 krónur á hlut. Lágmarksáskrift er 100 þúsund krónur og hámarksáskrift er 20 milljónir króna. Lágmarksáskrift í tilboðsbók B er 20 milljónir króna og verða 158 milljónir hluta í boði á verðbilinu 18 til 20 krónur.