Greiningarfyrirtækið Jakobsson Capital metur útgerðarfyrirtækið á 118 milljarða króna eða nærri 25 milljörðum króna yfir neðra verðbili útvegsfyrirtækisins í útboðinu sem hefst á mánudaginn. Markaðsverð Síldarvinnslunnar (SVN) miðað við hlutabréfagengi í félagsins í útboðinu er um 93,5-98,6 milljarða króna.

Verðmatsgengi Jakobsson er 70 krónur á hlut sem er um 27% yfir lægsta útboðsgenginu, 55 krónur á hlut, og um 20,7% yfir hæsta útboðsgenginu fyrir almenna fjárfesta sem er 58 krónur á hlut.

Jacobsson gerir ráð fyrir að loðnuvertíðin ásamt nýju skipi leiði til þess að tekjur SVN í ár verði 229 milljónir dala, EBITDA hagnaður um 75 milljónir dala og rekstrarhagnaður (EBIT) 63,4 milljónir dala.

Í verðmatinu er bent á að heildarvirði Síldarvinnslunnar, miðað við útboðsgengið, nemur um tuttuguföldum rekstrarhagnaði ársins 2020. Til samanburðar er sama kennitala um 23,4 hjá útgerðarfélaginu Brim. Verð Síldarvinnslunnar með tilliti til eigin fjár (P/B) er 2,4.

Sjá einnig: Samherji selur fjórðungshlut í Síldarvinnslunni

Áætlað er að 26,3%-29,3% hlutafé Síldarvinnslunnar verði til sölu útboðinu. Náist full áskrift verður útboðið því að andvirði viðskipta í útboðinu a.m.k. 24,6 milljarðar króna.

Útboðið hefst klukkan tíu mánudaginn 10. maí og lýkur klukkan fjögur miðvikudaginn 12. maí og tilkynnt verður um niðurstöðu útboðsins föstudaginn 14. maí. Ráðgert er að hefja viðskipti hefjist með hluti í Síldarvinnslunni í Kauphöllinni þann 27. maí.